



Greinar
Lækning sjúkdóma
Varnar- og ónæmiskerfi okkar býr yfir ótrúlegustu hæfni til að verjast sjúkdómum. En stundum bregðast varnirnar og við veikjumst. (Sjá orsakir sjúkdóma) Ef við gerum engar ráðstafanir veikjumst við ennþá meira. Við höfum þrjá möguleika:
1. Við getum hlustað á líkama okkar og sjálf fundið út hverju við þurfum að breyta. Kannski þurfum við að hætta að reykja, minnka áfengisneyslu, hreyfa okkur meira, slaka meira á, breyta hugsunarmynstrinu, bæta kynlífið eða breyta mataræðinu. Oft er þetta nóg til að bæta heilsuna, ef við breytum til áður en við veikjumst of mikið. Ef við leitum aðstoðar annarra, þá höfum við hina möguleikana.
2. Við getum farið til hefðbundins læknis. Hann mun leita að sjúkdómseinkennunum og reyna að lækna þau. Í langt flestum tilfellum endar það með að hann eða sérfræðingur sem hann vísar á, gefur okkur lyfseðil á lyf sem á að lækna sjúkdómseinkennin eða afleiðingar sjúkdómsins. Ef lyfin hjálpa ekki er kannski reynt annað lyf í staðinn. Ef sjúkdómseinkennin hverfa, þá eru allir ánægðir. Við höfum læknast! En staðreyndin er sú að orsök vandans er ennþá til staðar. Orsökin getur verið eitthvað sem gerðist fyrir löngu, annað hvort sálræns eða líkamlegs eðlis. Og líkamlega vandamálið er oft allt annars staðar en þar sem við finnum mest til. Líkaminn bregst stundum við með því að sýna sjúkdómseinkenni á einhvern annan hátt, kannski á allt öðrum stað á líkamanum. Með lyfjameðferð veikist ónæmiskerfið okkar og við veikjumst auðveldlega aftur. Þegar við svo förum á næsta lyfjakúr þá er vitahringurinn hafinn!
3. Við getum leitað okkur hjálpar í óhefðbundinni meðferð. Óhefðbundnar meðferðir byggjast á heildrænni meðhöndlun (e: holistic treatment) og að hjálpa líkama viðkomandi að lækna sjálfan sig. Meðferðaraðilinn lítur á skjólstæðinginn sem heild, bæði andlega og líkamlega, en ekki bara sem sjúkling með viss sjúkdómseinkenni. Maður læknar ekki sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni beint, heldur er allur líkaminn meðhöndlaður á einhvern hátt og ónæmiskerfið styrkist. Besti árangurinn næst áður en við förum í lyfjameðferð hjá hefðbundnum lækni. Þá þarf líkaminn ekki líka að berjast við að eyða lyfinu úr líkamanum. En við megum auðvitað ekki hætta lyfjameðferð án samráðs við lækni.
Óhefðbundnar meðferðir eru mjög mikilvægar sem fyrirbyggjandi aðgerðir. Við höfum gott af að fara í slíka meðferð bara til þess að slaka á og styrkja ónæmiskerfið okkar.
Auðvitað væri það hagur þeirra sem eru að leita sér hjálpar með heilbrigði sitt, að hefðbundnir læknar og óhefðbundnir meðferðaraðilar hefðu með sér samstarf. Þá er átt við að hefðbundnir læknar myndu læra um og hafa skilningu á gildi óhefðbundinna meðferða og vísa sjúklingum sínum til óhefðbundinna meðferðaraðila í staðinn fyrir að setja þá strax í lyfjameðferð. Þeir sem stunda óhefðbundnar meðferðir beina auðvitað skjólstæðingum sínum til læknis þegar þeir verða varir við alvarlega sjúkdóma. Það er greinilega ekki stefna landlæknisembættisins að hefja svona samstarf. Á þeim bæ er fólk upptekið við að gagnrýna óhefðbundnar meðferðir og finna rök á móti gildi þeirra.
Það er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að mjög margir leita í óhefðbundna meðferð. Oft er það fólk sem skilur gildi þess að lifa heilbrigðu lífi án lyfja, eða að það hefur gefist upp á hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi. Maður fer ekki aftur og aftur með bílinn sín til sama verkstæðis, ef þeir geta ekki leyst vandamálin!
Það eru margir sem vinna í opinbera heilbrigðiskerfinu sem hafa lært óhefðbundnar meðferðir og nota þær í starfi sínu. Það eru sem betur fer líka til læknar, sem hafa skilning á þessu. En það er sjaldgæft að læknar hér á landi noti sjálfir óhefðbundnar aðferðir (nema nálastungur). Þó að þeir eigi erfitt með að vísa sjúklingum sínum beint í óhefðbundnar meðferðir, hafa sumir þann háttinn á að þeir vísa þeim til meðferðaraðila í heilbrigðiskerfinu sem þeir vita að nota óhefðbundnar aðferðir.
Málið er það, að við þurfum sjálf að taka ábyrgð á heilsu okkar. Það er svo auðvelt að biðja bara einhvern annan að koma með töfralausn, eða fara til læknis og reikna með að fá meðal sem á að leysa öll vandamál.
Ég er ekki að gagnarýna læknismeðferð sem heild. Læknar vinna ótrúlegt starf í sambandi við slys, skurðaðgerðir o.fl. Það er öruggt að vita að maður er í góðum höndum ef eitthvað kemur upp á. Og það er hægt að bjarga lífi og hjálpa fólki með ótrúlegustu skurðaraðgerðum. Þó svo að maður geti komið í veg fyrir margar skurðaraðgerðir með óhefðbundnum meðferðum.
R.H.
Sjúkdómar eru eðlilegar afleiðingar óeðlilegs ástands líkamans.
