top of page

Greinar

Skyndibitafæði og skyndi-heilbrigðishjálp

 

Flestir lifa lífinu mjög hratt í okkar samfélagi. Hlutirnir þurfa að gerast strax, helst í gær. Við viljum gera svo mikið og vita svo mikið. Við tökum ekki okkar tíma til að slaka á.

 

Afleiðingar af þessari tímaþröng er meðal annars að við tökum okkur ekki tíma til að búa til matinn sjálf, eins og í “gamla daga”. Við pöntum mat frá skyndibitastað eða kaupum matinn tilbúinn. Skellum honum í örbylgjuofninn og borðum hann fyrir framan sjónvarpsfréttirnar þar sem er sagt frá alls konar hörmungum, bæði í tali og myndum. Eða við horfum á spennumynd með tilheyrandi ofbeldi og glæpum.

 

Þegar við veikjumst eða líðum ekki vel, viljum við fá bata strax. Við viljum halda áfram að lifa eins og við gerðum en losna við veikindin. Við förum til læknis og viljum fá lyf sem eiga að hjálpa okkur strax, svo við getum haldið áfram eins og áður.

 

Þetta virðist allt ganga upp. Íslenska þjóðin er hamingjusamasta þjóð í heimi, ekki satt, að minnsta kosti á pappírunum. Einnig er hún einhver sú langlífasta þjóð í heimi. Þó að vísu lifði ekki það fólk sem er gamalt í dag á sambærilegan hátt og fólk gerir í dag...

 

Sem betur fer eru margir sem staldra við og breyta lífsstíl sínum. Þau sjá að þetta gengur ekki til lengdar. Þau verða afslappaðri og heilbrigðari og líður betur. Fyrst og fremst taka þau meiri tíma í að vera saman með fjölskyldu  og vinum. Þau eru að hugsa um það sem skiptir mestu máli í lífi þeirra.  Það er kannski ekki endilega það að eignast dýrasta og fallegasta bílinn í hverfinu heldur lífsgæðin í heild sem skipta mestu máli. Aðrir breyta ekki til fyrr enn þeir neyðast til þess, út af veikindum eða slysförum.

 

Eins og sagt er í auglýsingu frá Samtökum framleiðenda frumlyfja:

“Lyf eru nauðsyn í nútímasamfélagi!” 

 

Þetta er einmitt það sem ég var að lýsa hérna. Það er eitthvað að samfélaginu. Við þurfum að breyta okkur til að geta lifað heilbrigðu lífi án lyfja!

 

Maður heyrir svo oft um fólk sem hefur lent í slysi eða alvarlegum veikindum o.s.frv. Þetta hefur svo haft í för með sér að það lítur allt öðruvísi á lífið og tilveruna. Það lærir að meta hlutina sem skiptir það máli. Afleiðingin er oftast að fólkið lifir betra og minna stressandi lífi.


Valið er okkar. Eigum við að sitja og bíða eftir slysinu sem breytir lífi okkar til hins betra eða viljum við frekar gera eitthvað að eigin frumkvæði. Við eigum að endurskoða líf okkar. Það er aldrei of seint að breyta til.

 

R.H.

 

Tíminn er enginn hraðbraut
milli vöggu og grafar
heldur staður 
til að fá sér sæti í sólskininu.

  • b-facebook
bottom of page